Reka kaffihús í dyragættinni heima hjá sér
Reka kaffihús í dyragættinni heima hjá sér...

Hjónin Birna Berndsen og Páll Benediktsson ákváðu að venda kvæði sínu í kross árið 2020, þegar Páll komst á eftirlaun, og fluttu í kúlulaga glerhús rétt utan við Hellu á Rangárvöllum. Í glerhýsinu, Auðkúlu, búa þau og reka kaffihús í dyragættinni heima hjá sér.Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir ræðir við hjónakornin í lokaþætti Á gamans aldri sem sýndur er á RÚV í kvöld. Í gegnum árin hafði Páll starfað sem fréttamaður, fjölmiðlafulltrúi og rithöfundur svo fátt sé nefnt og Birna hafði lengst af unnið sem verkefnisstjóri. Eftir fjölmörg ár á malbikinu ákváðu þau að flytja sig yfir í sannkallaðan ævintýraskóg við árbakka Ytri-Rangár.„Ég var kominn á eftirlaun og við vorum farin að velta fyrir okkur hvað við ættum að gera við, ég segi stundum, seinni helming ævinnar,“ segir Páll. Þau hjónin höfðu verið dugleg að ferðast með tjaldvagn um landið og var farið langa til að setjast að einhvers staðar rétt fyrir utan borgina. „Svo rákumst við á þetta og þá var eiginlega bara ekki aftur snúið.“Birna segir að það hafi verið skrifað í skýin að þau skyldu festa kaup á Auðkúlu. „Auðvitað gerist ekkert af sjálfu sér,“ segir hún, þau hafi nefnilega verið byrjuð að íhuga hvað þau ætluðu sér að gera við seinni ár ævinnar þegar húsið varð á vegi þeirra. „Þetta er alveg dásamlegur staður og við heilluðumst algjörlega af þessu húsi og gróðrinum hérna og öllu, kúlunni. Við bara hoppuðum á þetta, vorum svo heppin að ná að kaupa þetta hús og selja litla raðhúsið okkar í Reykjavík og komum bara vel út úr því,“ segir Páll.Auðkúla er enginn venjulegur íverustaður því í þessu 200 fermetra kúlulaga húsi er suðrænn innigarður þar sem finna má hverja Miðjarðarhafsplöntuna á fætur annarri. Innan paradísarinnar bakar Birna dísæta franska súkkulaði köku á meðan Páll hellir upp á kaffi fyrir gesti.Birna segist njóta þess að opna heimili sitt þrjá daga vikunnar. „Þetta er skrítnara en við héldum. Við vissum ekkert út í hvað við værum að fara. Þetta er eins og að fara í hlutverk: Á morgnana fer maður í kjólinn, Palli í skyrtu, kveikjum á tónlistinni og opnum dyrnar. Þetta er svolítið eins og að fara á svið.“Páll segir Birnu margfalt sterkari en hann sjálfur þegar kemur að nánast öllu tengdu kaffihúsarekstrinum. „Það er af því að hún sér að langmestu leyti um tölvumálin, posamálin, bókhaldið og hún býr til vöffludeigið og súkkulaðikökuna. Ég fer bara hérna fram og blaðra við fólkið,“ segir hann og þau hlæja bæði. „Hún er miklu sterkari og meiri aðili í þessu en ég. En auðvitað erum við í þessu saman og þetta bara virkar mjög vel, þessi hlutverk sem við erum í.“Rætt verður við Birnu Berndsen og Pál Benediktsson í lokaþætti Á gamans aldri á RÚV klukkan 20.15 í kvöld.