11 milljarða tap á fyrsta fjórðungi...

Íslensku flugfélögin töpuðu samtals 11 milljörðum króna á fyrstu þremur mánuðum ársins samkvæmt nýbirtum uppgjörstölum. Rekstur íslensku flugfélaganna er iðulega þyngstur á fyrsta ársfjórðungi enda eftirspurnin minni. Eldhræringar á Reykjanesskaga hjálpuðu heldur ekki til því þær drógu enn frekar úr eftirspurn erlendra ferðamanna hjá báðum flugfélögum. Play birti uppgjör sitt síðdegis og þar er niðurstaðan tap upp á þrjá milljarða króna. Handbært fé frá rekstri var 2,4 milljarðar króna í lok mars en hlutafjáraukning upp á 4,6 milljarða króna á að tryggja reksturinn til lengri tíma. Tekjuaukningin milli ára nemur 66 prósentum á sama tíma og sætaframboð jókst um 63 prósent. Alls flutti Play 349 þúsund farþega á fyrstu þremur mánuðum ársins. Icelandair tapaði sem nemur 8,3 milljörðum króna – sem er um 1,4 milljarði meira tap en á sama tíma í fyrra. Uppgjörið var birt í gær. Lausafjárstaða félagsins er um 57,4 milljarðar króna. Tekjur félagsins jukust um 11 prósent á milli ára en framboð í farþegaflugi jókst um 21 prósent. 757 þúsund farþegar flugu með Icelandair á tímabilinu. Stjórnendur Icelandair gera ráð fyrir að skila hagnaði í ár. Horfur Play eru óbreyttar frá fyrri spá og reiknað með að afkoman fyrir skatta og afskriftir verði í kringum núllið.